Ef skarð er mjög breitt er gert við það með bráðabirgðaaðgerð í fyrstu viku eftir fæðingu,hvort sem vörin ein er klofin eða bæði vör og gómur. Varanleg aðgerð fer fram um það bil þremur mánuðum síðar. Ef skarðið er mjótt er viðgerð látin bíða þar til endanleg aðgerð er gerð þremur til fjórum mánuðum eftir fæðingu.

Börn sem fæðast með skarð þurfa mörg hver að fara í gegnum margar aðgerðir.Á síðustu árum hafa augu manna opnast betur fyrir þörf barna fyrir verkjalyf fyrir  og eftir aðgerðir og mikilvægi þess að undirbúa þau fyrir aðgerðir.

Aðgerð á góm

Ef skarð er mjög breitt er gert við það með bráðabirgðaaðgerð í fyrstu viku eftir fæðingu,hvort sem vörin ein er klofin eða bæði vör og gómur. Varanleg aðgerð fer fram um það bil þremur mánuðum síðar. Ef skarðið er mjótt er viðgerð látin bíða þar til endanleg aðgerð er gerð þremur til fjórum mánuðum eftir fæðingu.

Undirbúningur gómaðgerða

Tekið er strok úr koki barnsins, venjulega 3 – 4 dögum fyrir aðgerð. Þetta er gert með áhaldi sem er nokkurs konar lengd útgáfa af snyrtipinna. Þetta er gert til að ganga úr skugga um að ákveðnir sýklar séu ekki til staðar. Finnist þeir í sýninu er nauðsynlegt að gefa barninu sýklalyf eða fresta aðgerð.

Mikilvægt er að undirbúa barnið vel fyrir aðgerð. Sé þetta gert á afslappaðan og jákvæðan hátt verður spítalalegan og aðgerðin sjálf miklu minna mál en ella fyrir barnið. Útskýra má fyrir barninu (og foreldrum) hvernig ferlið gengur fyrir sig,sýna því svæfingarmaska og leyfa því að æfa sig á því að anda í hann. Mikilvægt er að foreldrar séu fræddir um gang mála því að rólegir foreldrar eru forsenda þess að barnið sé öruggt og rólegt. Hérlendis er foreldrum boðið að vera hjá börnum sínum í undirbúningsherbergi á skurðstofugangi.Þar fá börnin forlyfjagjöf í endaþarm og innan skamms tíma eru þau orðin kærulaus og sátt við að yfirgefa foreldra sína í fylgd sjúkrunarliðs. Á meðan lyfin eru að virka geta börnin skoðað dót og bækur sem komið hefur verið fyrir í sérstöku barnahorni í undirbúningsherberginu. Börnin eru oftast rólegri með foreldrana hjá sér og eiga auðveldara með að sofna. Talið er að sálarlegt áfall og álag til lengri tíma litið verði minna fyrir börnin á þennan hátt

Eitt af því sem gott er að hafa í huga fyrir aðgerð er að halda stungum í lágmarki. Ef þær eru nauðsynlegar ætti að bera EMLA-krem, sem er staðdeyfilyf, á stungu-staðinn 45 til 60 mínútum fyrir stunguna. Barnið finnur þá fyrst og fremst fyrir þrýstingi í stað sársauka. Þegar komið er með barn í innritun setur hjúkrunarfræðingur kremi á barnið. Blóðprufa er tekin þegar kremið hefur náð að virka. Foreldrar fá leiðsögn um notkun EMLA-krems og fá það með sér heim til að setja á barnið að morgni aðgerðardags.