Næring barna með skarð

Eyrnavandamál Algengt er að börn með skarð í vör og/eða góm geti ekki tekið brjóst. Flestar
mæður reyna þó að fá barn sitt til að taka brjóst en margar þeirra verða fyrir
miklum vonbrigðum þegar slíkt tekst ekki og telja sér jafnvel vera hafnað. Ekki
hjálpar til þegar ættingjar og vinir leggja ofuráherslu á áframhaldandi tilraunir af
þessu tagi. Ástæður þess að barnið getur ekki tekið brjóst eru að það getur ekki
sogið vegna þess að gómurinn er opinn og loft lekur um skarðið og kemur í veg
fyrir að nægilegt sog myndist. Ef barnið er aðeins með skarð í vör má í stöku tilfellum
hjálpa því til að sjúga með því að leggja fingur yfir skarðið til að loka fyrir
loftlekann eða hagræða brjóstinu þannig að það loki fyrir skarðið. Margir kostir
geta fylgt slíkri brjóstagjöf en hún getur jafnframt reynt mikið bæði á barnið og
móðurina. Rétt er að leggja sérstaka áherslu á að mæður ofreyni sig ekki andlega
við slíkar tilraunir og viðurkenni að nota verði aðrar aðferðir til að næra
barnið.

Hjálpartæki við fæðugjöf

Þrátt fyrir þetta er gott að börnin fái móðurmjólk eins og önnur börn en ýmis
hjálpartæki eru til þannig að af því megi verða. Til eru sérstakar mjaltavélar sem
mæður geta notað til að mjólka sig. Það er hins vegar mikil vinna og ekki hafa
allar mæður orku eða aðstöðu til að halda slíkri framleiðslu til streitu. Það er því
rétt að ítreka að þurrmjólk sú sem framleidd er sérstaklega fyrir ungabörn er
mjög góður kostur og inniheldur öll nauðsynleg næringarefni. Yfirleitt er ekki
unnt að nota venjulega pela til að gefa barni með skarð að drekka af sömu
ástæðum og það getur ekki tekið brjóst. Þess í stað eru til nokkrar gerðir af sérstökum
pelum til að auðvelda fæðugjöf. Algengasta tegundin eru svo nefndir
skeiðarpelar þar sem nokkurs konar skeið kemur í stað hefðbundinnar túttu. Með
þessum pelum er mjólkin látin renna upp í barnið og það kyngir henni, en þessi
börn kyngja eðlilega. Þá eru einnig fáanlegir pumpupelar, þar sem túttan er stór
og þannig útbúin að sá sem gefur barninu að drekka kreistir túttuna á sérstakan
máta og dælir mjólkinni þannig upp í barnið.

Látið barnið ropa reglulega 

Börn með skarð gleypa oft meira loft en önnur þegar þau drekka og því er mikilvægt
að láta þau ropa öðru hverju meðan á fæðugjöfinni stendur. Þá kemur oft
einhver mjólk og önnur fæða út um nefið meðan á fæðugjöf stendur en ekki er
ástæða til að hafa áhyggjur af því. Þegar aðgerðir hafa verið gerðar á góm dregur
yfirleitt verulega úr þessu.
Mikilvægt er að hafa barnið sitjandi eða hálfsitjandi í fanginu á meðan því er
gefið. Þetta er gert til að vökvi renni síður inn í hlustirnar og valdi vandræðum
þar. Yfirleitt gengur vel að gefa barni með skarð að drekka og borða en þeir sem
annast barnið verða sjálfir að finna þá aðferð sem best gefst því að mismunandi
er hvaða aðferð og hjálpartæki henta hverju barni best.
Ef barninu svelgist mikið á er líklegt að rennslið úr pelanum sé of mikið og hvíla
þurfi barnið milli sopa. Ef það tekur barnið langan tíma að nærast, 30 til 40
mínútur í senn, þarf að gæta að því hvað betur megi fara. Barnið þreytist þá um
of, fær ekki nóg og þyngist illa. Stundum má bæta úr þessu með mjög einföldum
hætti, til dæmis með því að stækka op túttunnar.

Fastari fæða

Þegar kemur að því að gefa barninu maukfæði er gott að byrja með því að þynna
það með vatni, mjólk eða ávaxtasafa og hugsanlega gefa það úr skeiðarpela. Gott
getur verið að setja kjöt eða fisk, kartöflur og annað grænmeti í matvinnsluvél og
þynna með soðinu eða öðrum vökva þannig að úr verði þunnt mauk. Síðan má
þykkja maukið smám saman og nota skeið. Rétt er þó að enda allar máltíðir með
24 Handbók aðstandenda Breið bþví að skola góminn með tærum vökva (vatni). Áhrifaríkast er að nota handhæga sprautu en einnig er hægt að setja vatn í pela eða stútkönnu. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrstu vikurnar eftir aðgerðir. Athugið að í engum tilfellum má
gefa barni mjólkurmat í fáeina daga eftir aðgerðir þar sem mjólkurvörur mynda skán sem er æti fyrir ígerð og getur eyðilagt árangur aðgerða. Gott er að láta að minnsta kosti fjóra daga líða eftir aðgerð án þess að barnið fái mjólkurvörur. Um það bil tveimur vikum eftir aðgerð getur barnið nærst á sama hátt og önnur börn. Eftir aðgerð ætti að halda börnum frá því að matast sjálf þar
sem þau gætu stungið skeið eða öðrum aðskotahlut í sárið og rifið upp sauma.

Snuð og sogþörf

Börn með skarð í vör og góm hafa sömu sogþörf og önnur börn. Þau geta yfirleitt
tekið snuð þótt þeim haldist misvel á þeim. Hins vegar getur verið varhugavert
að gefa þeim snuð fyrst eftir aðgerðir þar sem snuðið getur spillt árangri aðgerð-
anna meðan sárin eru að gróa. Til að fullnægja sogþörf barnanna á þessu tímabili
má nota grisju sem bleytt er í sæfðu vatni og brotin saman í lítinn vöndul.

Flúortöflur

Þessum börnum er eins og öðrum mikilvægt að fæðan innihaldi öll þau næringarefni
sem þau þurfa á að halda en auk þess er mikilvægt að huga vel að tannhirðu
þeirra og gefa þeim flúor. Flúortöflur fást afhentar endurgjaldslaust á
heilsugæslustöðvum.

Hver og einn verður að finna þá aðferð og þau hjálpartæki sem henta best til að næra sitt barn því að ekki hentar sama aðferðin öllum