Eyrnavandamál

Eyrnavandamál eru mjög algeng hjá börnum með klofinn góm, hvort sem um er að ræða skarð í öllum gómnum eða eingöngu mjúka gómnum. Talið er að allt að 97% barnanna fái einhver eyrnavandamál. Þessi vandamál skiptast í eyrna- bólgur og vökva í eyrum eða slímeyru.

Eyrnabólgur

Eyrnabólgur eru sýkingar í miðeyra af völdum baktería eða veira. Þá sést roði á hljóðhimnu og hún bungar jafnvel út. Einkennin eru óværð og stundum hiti og almennur lasleiki. Meðferð fer eftir ástandi og útliti. Stundum lagast eyrnabólga af sjálfu sér en oft þarf sýklalyfjagjöf. Börn með klofinn góm fá oft aftur og aftur eyrnabólgu. Vökvi í eyrum er yfirleitt undirliggjandi orsök og því er oftast nauð- synlegur hluti meðferðar að setja rör í eyra. Eyrnabólga sem er viðvarandi, end- urtekin og illa meðhöndluð getur valdið varanlegum skaða á heyrnarbeinum og hljóðhimnu og þar með heyrnarskemmd. Mikilvægasti tilgangur meðferðar er að varðveita heyrnina.

Vökvi í eyrum – slímeyru

Grunnorsök eyrnavandamála hjá börnum með klofinn góm er að kokhlustin starfar ekki eðlilega. Kokhlustin hefur það hlutverk að jafna þrýsting í miðeyra. Hún opnast þegar gómurinn hreyfist, til dæmis þegar kyngt er. Vöðvar í mjúka gómnum sjá að hluta um að opna kokhlustina. Þessir vöðvar eru oft óeðlilegir og starfa ekki eðlilega ef gómurinn er klofinn. Þetta lagast ekki þótt gómurinn sé lagfærður. Hjá börnum með klofinn góm virkar kokhlustin því illa. Afleiðingin er sú að undirþrýstingur myndast í miðeyranu. Við það verða breytingar í slímhúð miðeyrans og hún fer að framleiða vökva og slím sem safnast fyrir í miðeyranu. Þetta er kallað að vera með vökva í eyrum. Eftir því sem á líður verða meiri bólgubreytingar í slímhúðinni og slímið verður þykkara. Það er kallað slímeyru. Þrýstingur inni í miðeyranu eykst og veldur börnunum óþægindum. Þau verða pirruð og ýmis hegðunarvandamál geta komið fram. Heyrnin minnkar einnig og líkur aukast á eyrnabólgum. Ef ekkert er að gert geta orðið krónískar breytingar á hljóðhimnunni, hún dregst inn og leggst yfir heyrnarbeinin og festist þar. Þetta getur haft í för með sér varanlegar heyrnarskemmdir.

Vökva í eyrum má greina með skoðun. Hljóðhimnan er þá ógegnsæ og mött og stundum má sjá vökvaborð. Þrýstingur mælist óeðlilegur. Heyrnarmælingar eru erfiðar í framkvæmd hjá ungum börnum og því erfitt að meta heyrnardeyfu. Mik- ilvægt er að greina vökva í eyrum og slímeyru og meðhöndla til að hindra varan- lega heyrnarskemmd. Stundum eru gefin sýklalyf. Það er byggt á því að hjá 10 – 30% barna með vökva í eyrum ræktast bakteríur úr vökvanum. Einnig hefur verið reynt að stinga á hljóðhimnuna og tæma út vökva. Það er þó skammgóður vermir því að gatið grær hratt og miðeyrað nær ekki að loftfyllast. Besta með- ferðin er að setja rör í eyrun.

Rör

Börn með klofinn góm þurfa langflest að fá rör í eyrun vegna vökvamyndunar í miðeyra. Rörin eru sett í gegnum hljóðhimnuna, annar endinn snýr inn í miðeyra en hinn endinn út í eyrnaganginn. Þau virka sem loftventill í stað kokhlustarinnar. Barnið er svæft á meðan rörunum er komið fyrir.

Stungið er á hljóðhimnuna og slím og vökvi tæmt út og síðan er rörunum komið fyrir, einu í hvoru eyra. Næsta sólahring lekur oft blóðugur vökvi út úr eyranu og er það eðlilegt. Sumir læknar mæla með eyrnadropum í eyrun fyrstu dagana á eftir. Nauðsynlegt er að skoða barnið eftir 2 – 4 vikur til að athuga hvort rörin starfi eðlilega og koma síðan með barnið í eftirlit á 3 – 6 mánaða fresti. Rörin endast misvel. Gott þykir ef þau duga í meira en 6 mánuði. Ef rörin duga stutt eru sett svokölluð T-rör sem eru lengri, mýkri og festast betur en hin hefðbundnu. Þau er ekki hægt að setja í minnstu börnin. Börn með klofinn góm þurfa mörg hver að hafa rör fram til 8 – 10 ára aldurs. Börn með rör mega fara í sund en gæta þarf að því að vatn getur leitað inn í eyrað, til dæmis við köfun og þegar vatnsrennibrautir eru annars vegar. Það er því gott að nota eyrnatappa.

Gagnsemi röranna felst í því að þau halda þrýstingi eðlilegum í miðeyra og koma þannig í veg fyrir vökvasöfnun. Heyrnin batnar þegar vökvinn hverfur og það getur einnig haft góð áhrif á málþroska. Rannsóknir hafa sýnt að allt að 90% barna með eyrnabólgu fá verulegan bata við röraísetningu. Börnin geta þó fengið eyrnabólgu áfram en þá lekur vökvi út um rörin og greining er auðveld og óþægindi minni en ella.

Helstu vandamálin með rörin eru að þau geta losnað og þarf þá að setja ný. Það er mjög sjaldgæft að rörin detti inn í miðeyrað, venjulega losna þau út í eyrna- ganginn. Hljóðhimnan grær venjulega vel þegar búið er að fjarlægja rör. Á þessu eru þó undantekningar og þarf stöku sinnum að gera aðgerðir og lagfæra gatið þegar börnin eru orðin stór. Sum börn fá endurteknar sýkingar og leka þá rörin stöðugt. Ofholdgun getur myndast í kringum rör ef það hefur verið lengi í eyranu. Þá getur lekið út blóðugt slím og þarf þá að fjarlægja rörið. Þrátt fyrir þetta eru kostir röranna margfaldir á við ókostina, sérstaklega fyrir börn með klofinn góm.

Heyrn

Eðlileg heyrn er grundvöllur eðlilegs málþroska. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á verri heyrn hjá börnum með klofinn góm en öðrum börnum. Einnig hafa komið fram vísbendingar um seinkaðan tal- og málþroska og námserfiðleika hjá þessum börnum sem afleiðingar heyrnardeyfu. Þetta er talið stafa af vökva- söfnun í miðeyra. Börn með klofinn góm geta einnig haft heyrnarskemmdir vegna sýkinga. Það er þó hægt að fyrirbyggja hluta af þessum vanda með góðri meðferð og eftirliti. Heyrnarmælingar er erfitt að gera hjá börnum yngri en 4 ára. Heyrn hjá ungum börnum má þó meta gróflega með því hvernig þau bregðast við áreiti og hljóðum.

Nefkirtill – hálskirtlar

Nefkirtill er eitilvefur sem liggur alveg upp við kokhlust. Hann getur orðið nokk- urs konar bakteríuhreiður hjá ungum börnum og haft meðvirkandi áhrif á tíðni eyrnabólgu. Hann er því oft fjarlægður úr börnum. Börn með klofinn góm hafa oft fremur stuttan góm og geta átt erfitt með að loka nægilega vel á milli nef- koks og koks. Afleiðingin er sú að þau geta fengið það sem kallað er opið nef- mæli. Nefkirtillinn hjálpar til við að loka þarna á milli. Ef hann er fjarlægður myndast meira rými í kokinu og mjúki gómurinn nær ekki að loka eins vel með fyrrgreindum afleiðingum. Með aldrinum rýrnar nefkirtillinn og hverfur.

Hálskirtlarnir eru tveir og staðsettir í kokinu. Of stórir hálskirtlar geta í sumum tilfellum þrýst gómnum fram og skekkt tennur. Hins vegar eru sérfræðingar ekki á einu máli um það hvort fjarlægja megi hálskirtlana, þar sem sumir þeirra telja að þeir geti hjálpað til við að hindra nefmæli í ákveðnum tilfellum. Af þessum sökum ættu aðstandendur í öllum tilfellum að ráðfæra sig við þá sérfræðinga sem hafa barnið til meðferðar áður en hálskirtlar eru fjarlægðir.

 

Opið nefmæli

Opið nefmæli er það kallað þegar loft sleppur út um nef við hljóðmyndun. Öll hljóð nema nefhljóðin, það er /n, m, ng/, fara út um munninn þegar við tölum venju- lega. Þetta getur gerst þegar mjúki gómurinn (gómfylla) er of stuttur til að loka við aftari kokvegg eða þegar skarð er í harða eða mjúka gómnum. Þegar mjúki góm- urinn er of stuttur þá sleppur loft beint aftan úr koki upp og út um nefið.

Skarð í harða eða mjúka gómnum getur einnig valdið því að loft fer út um það op úr munninum upp í nef.

Það getur gengið illa að mynda þrýsting inni í munninum sem þarf til að sjúga, blása eða við framburð ákveðinna hljóða. Til þess að halda þrýstingi inni í munn- holinu má ekkert loft sleppa út um nefið.

Miklu máli skiptir að barnið opni vel munninn þegar það talar því að þannig er meiri möguleiki á að loft fari út um munninn en sleppi ekki út um nefið.

Þá skiptir miklu máli að tala ekki of hratt því að þá nær mjúki gómurinn síður að loka við aftari kokvegg þegar nefhljóðum og munnhljóðum er blandað saman í framburði því að mjúki gómurinn breytir um stöðu, lyftist upp og niður eftir mismunandi framburði. Sumir einstaklingar ná því að loka þegar þeir bera fram stök hljóð en í setningum eða samfelldu tali er hraðinn of mikill til að það geti gerst.

Hvað geta foreldrar eða barnið gert?

 1. Talfæraæfingar til að auka skynjun og tilfinningu fyrir stöðu talfæra.
 2. Æfingar í að sjúga og blása        
  2.1. Blása með röri í vatnsglas – nokkrum sinnum á dag.
  2.2. Blása á kerti.
  2.3. Blása á bómullarhnoðra eða borðtenniskúlu á borði – koma þeim í mark á ákveðnum stað á borðinu.
  2.4. Blása sápukúlur.
  2.5. Blása á þunna bréfræmu og sjá hana lyftast.
  2.6. Blása út í kinnar og sleppa síðan loftinu út með sprengihljóðinu /p/.
  2.7. Sjúga drykki sem mest með röri.
  2.8. Sjúga vökva upp í rör og halda honum á fyrir fram merktum stað á rörinu.
  2.9. Sjúga þunnar bréfræmur upp með röri og setja í glas.
  2.10.  Sjúga mjóa íspinna.

Þá er gott að nota flautur og vælur til að flauta í og ýmis blástursleikföng sem hægt er að finna í leikfangaverslunum, svo sem rellur.

Aðrar æfingar:

 1. Æfa sérhljóðin stök fyrir betri opnun talfæra (a – í – ú …).
 2. Smella í góm með tungunni fyrir þrýsting tungu inni í munni.
 3. Skola með litlu vatni aftur í koki til að æfa lokun tungubaks við efri góm.

 

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Starfsfólk Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands annast eftirlit á heyrn og tali holgóma barna og veitir aðstandendum þeirra ráðgjöf. Þar starfa meðal annars:

 • Heyrnarfræðingur og heyrnartæknar sem mæla heyrnina,
 • Háls-, nef- og eyrnalæknar sem annast háls-, nef- og eyrnaskoðun, 
 • Talmeinafræðingur sem metur mál og tal barns.

Þessir aðilar starfa í samvinnu við aðra fagaðila, svo sem lýtalækna Landspítala, og eru foreldrum til ráðgjafar og leiðbeiningar. Eiginleg háls-, nef- og eyrnameð- ferð, svo sem röraísetningar, er ekki framkvæmd á stofnuninni og ekki heldur bein talkennsla. Mjög oft þurfa holgóma börn meðferð á eyrum. Börnum sem þurfa hennar með er vísað af starfsfólki Heyrnar- og talmeinastöðvar til sjálfstætt starfandi háls-, nef- og eyrnalækna. Ef barnið þarf talkennslu þá fer hún fram á vegum sveitarfélags barnsins, á leikskólum eða í skólum, eða hjá sjálfstætt starf- andi talmeinafræðingum. Í dag er heimsókn barna sem eru fædd holgóma til Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar foreldrum að kostnaðarlausu.

Um eyru

Börn fædd holgóma eru í sérstökum áhættuhópi varðandi miðeyrnasjúkdóma. Kokhlustin sem jafna á þrýsting milli nefkoksins og miðeyrans er oftar en ekki sködduð. Það veldur því að þrýstingurinn í miðeyranu verður óeðlilegur og þar vill safnast vökvi. Slíkt ástand þarf ekki að valda miklum óþægindum hjá barn- inu og því getur þetta leynst nokkuð lengi. Þessu ástandi fylgir oftast tímabundin heyrnarskerðing og því er brýnt að fylgst sé vel með ástandi eyrnanna frá því fyrsta. Ef það er gert á ekki að vera hætta á erfiðleikum eða varanlegum skemmdum á miðeyranu.

Um mál og tal

Ekkert er í vegi fyrir því að almennur málþroski verði jafneðlilegur hjá holgóma börnum og öðrum börnum. Hins vegar er alltaf möguleiki á að framburður ein- stakra málhljóða víki frá hinu eðlilega ferli. Til dæmis eru ýmis hljóð sem krefj- ast þrýstings í munni viðkvæm, svo sem /p, t, k, s/. Það er þó langt frá því að vera einhlítt. Hjá mörgum börnum og fullorðnum, fæddum holgóma, er ekki hægt að greina neitt óeðlilegt við tal þeirra.

Hvenær á að koma með barnið á HTÍ?

Samkvæmt lögum um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands eiga öll holgóma börn að vera þar á skrá. Eðlilegt er að komið sé með barnið strax á fyrsta ári í heyrn- armælingu og samtímis því komi foreldrar í viðtal hjá heyrnarfræðingi og tal- meinafræðingi. Á fyrstu árunum þarf barnið að koma einu sinni á ári í heyrnar- mælingu og þá mun talmeinafræðingur einnig vera til viðtals og veita ráðgjöf. Ef foreldrum finnst ástæða til að koma oftar en hér er nefnt á Heyrnar- og talmeina- stöð Íslands er þeim velkomið að gera það. Rétt er að benda á að panta þarf tíma með nokkrum fyrirvara.

 

Tannréttingar


Foreldrum sem eignast börn með klofinn góm eða skarð í tanngarð eða vör verður brátt ljóst að þau þurfa að njóta umönnunar stórs hóps fagmanna öll uppvaxtar- árin. Tannréttingasérfræðingar eru tannlæknar sem hafa sérmenntað sig í með- ferð á tann- og bitskekkjum og gegna veigamiklu hlutverki innan þessa hóps.

Skarði í tanngarð eða góm fylgja að jafnaði tann- og bitskekkjur sem eru bein afleið- ing þessa meðfædda galla. Dæmi um slíkar skekkjur eru undirbit sem stafar af því að framvöxtur efri kjálkans er ekki nægilegur og krossbit sem rekja má til þess að jaxlasvæði falla saman inn að skarðinu þannig að breidd efri tannbogans minnkar. Einnig verður oft truflun á vexti tannkíma næst skarðinu þannig að þar myndast of margar eða of fáar tennur, gallaðar tennur, snúnar eða rangstæðar tennur.

Börn sem fæðast með klofinn góm eða skarð í tanngarð og vör hafa því mikla þörf fyrir tannréttingar. Meðferð og eftirlit hefst yfirleitt á unga aldri og lýkur ekki fyrr en tannskiptum og vexti er lokið. Algengt er að meðferðin líkist því sem lýst er í stuttu máli hér á eftir.

Tannréttingar á tannskiptaaldri

Yfirleitt er hafist handa við lagfæringu á tannskekkju um 7 – 8 ára aldur en æskilegt er þó að koma með barnið fyrr til skoðunar hjá tannréttingasérfræðingi, t.d. 4 – 6 ára. Þó að barnatennurnar sýnist vera mikið skakkar á þessum aldri og til lítils gagns má alls ekki vanrækja hirðu þeirra. Þegar í stað á að hefja burstun tanna við komu þeirra og halda barnatönnunum eins heilum og mögu- legt er með góðri tannhirðu og hófsemi í sykurneyslu. Reglulegt eftirlit hjá heim- ilistannlækni er nauðsynlegt frá 2 – 3 ára aldri.

Þegar barnið er 6 – 8 ára fara fyrstu fullorðinsframtennurnar að koma í ljós. Þær eru yfirleitt snúnar og í rangstöðu og nauðsynlegt að stýra þeim á réttan stað í tann- boganum jafnóðum og þær koma niður. Þetta er ýmist gert með gómplötum eða föstum, álímdum tannréttingatækjum, spöngum. Jafnframt er oft hafist handa við að víkka út hliðartannbogana og laga þannig krossbitið. Við þetta stækkar skarðið en tilgangurinn er að setja tannbogana í eðlilega stöðu eða því sem næst. Þegar þessum áfanga er náð er yfirleitt tímabært að lýtalæknirinn græði bein í skarðið til þess að loka því og skapa jafnframt betri aðstæður fyrir tennur sem eiga eftir að koma niður. Þessar aðgerðir eru gerðar á aldrinum 8 – 10 ára. Að lokinni þessari fyrstu lotu eiga framtennur að vera komnar í sæmilega stöðu og beinbrýr komnar á milli gómhelminganna. Oft eru virk tannréttingatæki fjarlægð á þessu stigi og beðið komu fleiri fullorðinstanna áður en hafist er handa á ný.

Tannréttingar að loknum tannskiptum

Hafi hlé verið gert á tannréttingunni eftir fyrsta áfangann hefst yfirleitt ný með- ferðarlota við 12 – 14 ára aldur þegar allar fullorðinstennur eru komnar upp. Þessi tannrétting er gerð með föstum tækjum og markmiðið er að rétta tennur og bit til fullnustu. Þegar tannréttingunni er endanlega lokið þarf síðan oft að smíða krónur til að bæta gallaðar tennur eða smíða brýr þar sem tennur vantar.

Enn má nefna að ef mikið misræmi er í framvexti efri og neðri kjálka getur þurft að breyta afstöðu þeirra með skurðaðgerð. Slíkar kjálkatilfærslur eru í höndum lýtalækna og munnskurðlækna og þær eru ekki gerðar fyrr en vexti unglingsins er lokið, þ.e. eftir 15 – 16 ára aldur hjá stúlkum og 17 – 18 ára aldur hjá piltum. Ef til slíkra kjálkaaðgerða kemur þarf enn að setja spengur á allar tennur, jafn- vel þó að það hafi verið gert tvisvar áður.

Samvinna

Eins og hér hefur verið rakið einkennist tannréttingin því miður af því að með- ferðartíminn getur orðið mjög langur. Þess vegna er mikilvægt að börn og for- eldrar noti þolinmæðina og vinni samviskusamlega að settu marki en árangurinn verður oft undraverður ef góð samvinna næst milli tannlæknis, barnsins og for- eldra þess. Hlutverk foreldra og barna í þessu samvinnuverkefni er m.a. að nota laus hjálpartæki svo sem teygjur og beisli samkvæmt fyrirmælum tannlæknisins, hirða tennurnar vel og forða spöngunum frá hnjaski af ógætilegu mataræði.

Í þessum stutta pistli hefur verið reynt að lýsa því hvernig tannréttingar koma almennt að gagni. Hvert barn er þó sérstakt og á einhvern hátt ólíkt öllum öðrum. Foreldrar eru því hvattir til að spyrja frekar til þess að fá svör um það hvaða úrræði geti átt við hverju sinni.