12.09.2016 23:07

Bréf til Heilbrigðisráðherra vegna mismununar réttinda skarðabarna

Þann 30. ágúst var sent inn formlegt bréf til Hr. Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Þar er hann hvattur til að endurskoða greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannlæknakostnaðar til barna með meðfædda galla í gómi/vör án tafar þar sem hagsmunir barnanna eru í húfi. 

"Börn með klofinn góm eða skarð í vör fæðast með fæðingargalla sem alla jafna hafa alvarlegar afleiðingar fyrir börnin. Fyrir utan líkamleg og andleg áhrif fyrir barnið sjálft þá er um sársaukafullar og langvarandi læknismeðferðir að ræða. Lýtalækningar vegna skarðsins eiga sér einna helst stað á fyrstu mánuðum og árum barnanna, en ræðst það af því hversu vel tekst til með aðgerðir á fyrstu aldursárum eða eftir því hversu mikið og flókið skarðið er. Börnin eiga þar fyrir utan fyrir höndum áralanga og jafnvel áratuga meðferð hjá tannlæknasérfræðingum. Augljóslega eru kostnaður í tengslum við meðferðir og aðgerðir mikill en gegnum áratugi hefur samfélagið tryggt þessum börnum fjárhagslega aðstoð í gegnum velferðarkerfið."

"Þannig var það svo að öll börn með skarð í gómi og/eða vör fengu endurgreitt 95% af kostnaði vegna tannréttinga skv. reglugerðum um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar frá 2002 og síðar 2005. Með reglugerðabreytingum frá árinu 2010 breyttist greiðsluþátttakan þannig að hún náði til þrengri hóps barna með skarð í vör og/eða gómi með 15 gr. reglugerðarinnar þar sem sérstaklega eru tilgreind börn sem fæðast með skarð í efri tannboga eða harða gómi. Í einföldu máli má segja að börn með skarð í harða gómi eða tanngarði fái ennþá endurgreiðslu vegna tannlæknakostnaðar en ekki börn með skarð í mjúka gómi (stundum nefnt hlutaskarð). Þannig fá nú börn, sem fyrir árið 2010 fengu fulla endurgreiðslu, ekki lengur aðstoð. Með þessu hafa sjúkratryggingar verið skertar til hluta af hópi barna sem fæðast með þessa fæðingargalla, jafnvel þótt afleiðingar af fæðingargöllum þeirra séu alvarlegar og sambærilegar þeim afleiðingum barna sem áfram fá endurgreiðslu skv. reglugerð.
Að mati sérfræðinga þurfa umrædd börn með skarð í mjúka gómi ekki síður á tannréttingum á halda en þau börn sem fæðast með skarð í harða gómi og/eða tanngarði. Sem dæmi má nefna að skúffubit er algengur fylgikvilli skarðs í mjúka gómi og miklar líkur á því að barnið þurfi að fara í endurteknar og langvarandi aðgerðir til að færa efri góminn fram."

Vonast er eftir skjótum svörum frá ráðherra og verður bréfinu fylgt eftir af stjórn Breiðra Brosa.

 Bréfið í heild má lesa hér 

Til baka